41% af eignasafni Heima er umhverfisvottað
Umhverfisvottanir fasteigna spila stórt hlutverk í að minnka þau neikvæðu umhverfisáhrif sem fasteignir félagsins hafa. Í upphafi árs 2019 var tekin ákvörðun um að hefja BREEAM In-Use umhverfisvottun á eignum í eignasafni og er stefnt að því að 50% af eignasafninu verði vottað.
Með BREEAM In-Use vottun fasteigna er m.a. hægt að greina þær áhættur sem hver bygging skapar fyrir umhverfið. Að auki eru þær staðfesting þriðja aðila á því að rekstraraðili fylgi bestu stöðlum og kröfum í rekstri fasteigna. Vottunin auðveldar upplýsingagjöf til leigutaka um rekstrarþætti eins og orkunotkun og sorpflokkun sem æ meiri eftirspurn er eftir.
Við höfum unnið ötullega að BREEAM In-Use umhverfisvottun bygginga okkar undanfarin ár. Smáralind var fyrsta bygging félagsins til að hljóta vottun árið 2019 og jafnframt fyrsta byggingin á Íslandi til að hljóta vottunina. Síðan hafa Höfðatorgsturninn í Katrínartúni 2, Borgartún 8-16, Egilshöll, Áslandsskóli og Gróska bæst í hópinn.
Samkvæmt vottunarkröfum fer endurvottun fram á þriggja ára fresti og hafa Smáralind, Höfðatorgsturn og Borgartún 8-16 þegar hlotið sínar fyrstu endurvottanir. Þá er annað endurvottunarferli Smáralindar hafið og nývottun Dvergshöfða 2 væntanleg með haustinu.
Heimar lögðu í upphafi áherslu á BREEAM In-Use rekstrarvottanir en með nýjum verkefnum var einnig ákveðið að fara í BREEAM New Constuction vottun á nýbyggingu. Dvergshöfði 4, 10.500 fm hágæða skrifstofubygging, er fyrsta eign félagsins í New Construction vottunarferli. Ferlið fylgir hönnunar- og framkvæmdastigum og mun vottun ljúka samhliða fullbyggingu hússins.
Um 41% af eignasafni Heima hefur því hlotið umhverfisvottun, Dvergshöfði 2 og Dvergshöfði 4 eru í vottunarferli og stefnt er að vottun enn fleiri eigna.