Veturinn 2022 hófum við undirbúningsvinnu við nýja markaðsstefnu og nýja ásýnd fyrir Fasteignafélagið Reginn og nú ýtum við úr vör nýrri og öflugri ásýnd fyrir félagið til framtíðar. Við förum frá því að vera hefðbundið fasteignafélag sem stendur bara fyrir steypu og gler og færum ímynd okkar að því sem við erum í raun og veru. Við sköpum nútímalega sjálfbæra borgarkjarna sem nærast á drifkrafti mannlegra samskipta. Okkar sýn er að Heimar skipti starfsfólk okkar og samfélagið allt raunverulegu máli.
Nýtt nafn fyrir nýja tíma
Heimar er rammíslenskt, jákvætt og eftirminnilegt nafn sem nær vel utan um starfsemi vörumerkisins og framtíðarsýn. Nafn sem býður upp á ný tækifæri og ný markmið.
Við völdum stórt nafn. Heiti sem hjálpar okkur að vaxa og hugsa lengra. Nafn sem veitir okkur innblástur og stækkar okkur.
Heimar geta verið ólíkir og margslungnir. Draumheimar jafnt sem raunheimar, mannheimar, undirheimar og uppheimar. Heimar geta verið heilar vetrarbrautir og allt niður í smæstu sandkorn. Innan þeirra rúmast ólík samfélög, hugmyndir og menning.
Merki, litir og letur
Merki Heima er í senn nútímalegt og tímalaust og umfram allt hreyfanlegt til notkunar í nútíma miðlaumhverfi. Einfalt geometrískt merki með margþætta vísun í fjölbreytta starfsemi félagsins.
Merkið okkar stendur sterkt eitt og sér en á jafnframt að geta staðið stolt með vörumerkjunum okkar. Þannig getum við aukið sýnileika Heima og byggt upp vitund vörumerkisins.
Við viljum að Heimar séu áberandi vörumerki. Eftirminnilegt og óhrætt við sviðsljósið.
Litapalettu Heima sóttum við í íslenskt umhverfi, íslenska birtu, heim andstæðna, heim ljóss og skugga. Dökki liturinn sem traust undirstaða vísar í stutt vetrardægri og bláma næturhiminsins en björtu litirnir í endalausa birtu sumarsins.
Letrið okkar heitir Geograph og er stílhreint sans serif letur í sex þykktum. Letrið er skýrt og læsilegt en með afgerandi hornum og köntum sem tóna vel við allt útlit Heima.
Formheimurinn
Grunnur að útliti Heima á rætur að rekja til merkisins. Merkið er teiknað með lóðréttum og láréttum línum brotnum upp með 45° skálínum. Útlitið notar þessa grind sem teiknast öll út frá merkinu. Þannig verður til eins konar borgarmynd sem minnir á götur, lituð hús og þök íslenkrar byggingarlistar. Útlitið getum við útfært eftir því sem á við hverju sinni og auðvelt er að einfalda það eða brjóta upp með því að fækka eða bæta við litum og formum.
Myndastíll Heima einkennist af hreinum formum og sterkum línum, leik ljóss við skugga. Þegar myndir eru teknar af eignum Heima leitum við að myndbyggingu falinni í arkitektúr og umhverfi eignanna og horfum minna í eignirnar í sinni heildarmynd.
Teiknistíll Heima byggir á einföldum geómetrískum formum úr formheimi vörumerkisins. Form með beinum línum og 45° halla eru notuð til að teikna allt frá einföldum táknmyndum yfir í flóknar myndksreytingar.
Við erum Heimar
Eitt öflugasta og framsæknasta fasteignafélag landsins. Við mótum nýjan farveg fyrir spennandi tækifæri, byggjum upp sjálfbæra borgarkjarna af hugviti, nýsköpun og samvinnu. Heimar byggja á traustum grunni, blása lífi í samfélagið og skapa meiri gæði fyrir íbúa í sátt við umhverfið.