Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Hafðu samband

Heimar munu birta afkomutilkynningu fyrir tímabilið 1.1. - 30.9.2025, eftir lokun markaða miðvikudaginn 22. október 2025 og bjóða til kynningarfundarsamdægurs.

Nánar hér

Egilshöll nú komin í fremstu röð þegar kemur að fótboltavöllum á Íslandi

30.1.2025

Í gær fór fram úrslitaleikur um Reykjavíkurmeistaratitilinn í knattspyrnu, þar sem KR sigraði Val örugglega og tryggði sér titilinn. Við óskum KR til hamingju með sigurinn og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá stórleiki sem þennan fara fram í Egilshöll.

Egilshöll hefur nefnilega gengið í gegnum umfangsmiklar endurbætur undanfarið, sem hafa gert hana að einni bestu íþróttaaðstöðunni á landinu. Völlurinn sem áður var talinn úr sér genginn er nú í fyrsta flokki eftir að gervigras, lýsing og fleiri þættir hafa verið uppfærðir.

Nýja gervigrasið á vellinum, Polytan Ligaturf RS Pro II, er frá þýska framleiðandanum Polytan, sem er með þeim stærstu í heiminum í framleiðslu gervigrasa. Grasið er sérlega slitsterkt með þykka og þétta þræði sem tryggir bæði góða spilun og lengri líftíma. Verkefnið var unnið í samstarfi við Metatron ehf., sem sá um niðurlagningu og frágang grasins. Með þessu gervigrasi er völlurinn orðinn aðlaðandi fyrir bæði æfingar og keppnir, og gerir aðstöðu í Egilshöll einstaklega sterka.

Lýsing Egilshallar var endurnýjuð og færð yfir í LED sem hefur áhrif á líftíma, nýtni, ljósgæði, stýringar, orku- og viðhaldskostnað. Orkusparnaðurinn við að skipta um ljósgjafa í knatthöllinni er um 69% auk viðbótarsparnaðar með betri stýringum í takt við rekstur Egilshallar hverju sinni.  Breytingin skilaði auk þess meiri ljósgæðum með betri litarendurgjöf, aukinni birtu og meiri jafnleika. Þessi breyting hefur ekki aðeins leitt til 69% orkusparnaðar, heldur hefur hún einnig bætt ljósgæði til muna gert upplifun notenda Egilshallar betri.

Nýja vökvunarkerfið í Egilshöll er af gerðinni Moby Dick, sem hefur verið notað á frægum völlum eins og Nou Camp. Þetta kerfi tryggir að grasvöllurinn haldist í toppstandi, sama hverjar aðstæður eru, og bætir enn frekar við þá alhliða uppfærslu sem hefur átt sér stað í Egilshöll.

Völlurinn hefur einnig fengið hæstu gæðavottun FIFA, FIFA Quality Pro, sem þýðir að völlurinn uppfyllir ströngustu kröfur FIFA og UEFA fyrir alþjóðlegar keppnir. Þó að völlurinn sé ekki notaður fyrir landsleiki eða evrópuleiki í dag, þá stendur ekkert tæknilega í vegi fyrir því.

Völlurinn er mikið notaður af knattspyrnufélögum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal Fjölni, Fylki, Þrótti, Fram, Val og KR. Að auki eru æfingar og námskeið haldin á vegum KSÍ. Með öllum þessum endurbótum er Egilshöll nú komin í fremstu röð þegar kemur að fótboltavöllum á Íslandi.