Heimar vilja efla íslenska tungu og minna á mikilvægi hennar í daglegu lífi. Við viljum að hún sé lifandi, aðgengileg öllum og þróist í takt við tímann. Íslenskan er samfélagsspegill og það er eðlilegt að ný orð verði til meðan önnur víkja. Notum íslenskuna af öryggi, með stolti og tryggjum að hún dafni áfram í síbreytilegu samfélagi.
Hlutverk Heima er að byggja upp og rækta sterka borgarkjarna þar sem fólk kemur saman og mannleg samskipti fá að blómstra. Samfélagsstefna félagsins, Orðheimar, snýr að tungumálinu okkar. Það er lykill að samfélaginu öllu, enda geymir það hugsanir okkar og sögu. Heimar styðja íslenska tungu, ekki bara til hátíðabrigða heldur alla daga.
Orð í útrýmingarhættu?
Íslenska er ótrúlega ríkt og margbrotið tungumál, uppfullt af orðum um allt milli himins og jarðar. Þrátt fyrir það er málumhverfi barna að stórum hluta á ensku og orðaforði, læsi og lesskilningur fer stöðugt minnkandi. Við þurfum að hlúa að tungumálinu okkar, tala það og skrifa til að halda því á lífi. Hugsum málið og finnum orðið á íslensku — það er til.
Hvað getum við gert?
· Hvetjum á jákvæðan hátt til samskipta á íslensku á öllum sviðum mannlífsins.
· Sýnum þeim sem hafa ekki náð fullum tökum á tungumálinu skilning.
· Nýtum okkur orðabækur og orðasöfn á netinu, eins og málið.is.
· Lesum íslenskar bækur, dagblöð og tímarit.
· Hlustum á íslenska tónlist og hlaðvörp.
· Sækjum leikhús og menningarviðburði á íslensku.
· Skrifum, fundum og hugsum á tungumálinu okkar.
· Styðjum nýja Íslendinga við að ná tökum á málinu.
Við höfum val á hverjum einasta degi um að tala íslensku hvert við annað.