Sjálfbærni

Stefnur

Grænir leigusamningar

Bæklingar og skýrslur

Umhverfisvottanir fasteigna

Hafðu samband

Sög­ur af við­skipta­vin­um

Fólkið á Hafnartorgi - Collections

9.7.2024

Gulla Bjarnadóttir og Heimir Geirsson verslunarstjórar Collections á Hafnartorgi. Collections selur fatnað í algjörum sérflokki fyrir öll kyn sem vilja klæða sig vel við hvert tilefni.

„Dásamlegu samtölin um daginn og veginn við viðskiptavini okkar gera dagana mína alltaf betri,“ segir Gulla. Heimir samsinnir þessu. „Maður hittir svo margt skemmtilegt og ólíkt fólk í þessu starfi og það er fátt betra en að gleðja viðskiptavini með því að velja falleg föt með þeim og ég tala nú ekki um þegar ánægðir kúnnar koma aftur og aftur.”

„Við erum þéttur hópur sem vinnum vel saman og þá er allt svo skemmtilegt. Það eru líka mikil forréttindi að aðstoða konurnar okkar að velja sér föt fyrir stóru gleðistundirnar í lífi þeirra. Gleðin sem fylgir því að púsla saman draumadressinu með viðskiptavinunum okkar og sjá þær labba glaðar og ánægðar út í daginn með draumadressið í poka…það er ekkert sem toppar það!“ segir Gulla með bros á vör.

Heimir segir að enginn dagur sé eins í versluninni og það sé það sem gerir starfið fjölbreytt og spennandi. „Það er ekkert sem toppar góðan dag á Hafnartorgi. Fyrir mér er Hafnartorg flottasti verslunarkjarni landsins. Allar byggingarnar og búðirnar glæsilegar og Hafnartorg Gallery upp á tíu! Við í Collections erum að selja vörumerki sem eiga að fást í miðbæ allra alvöru höfuðborga: Boss, Polo og Armani eru merki sem eiga að vera aðgengileg bæði Íslendingum og ferðamönnum í miðborginni.“

„Frá því að ég man eftir mér hefur mér fundist afskaplega gaman að rölta um miðbæ Reykjavíkur og mér finnst Hafnartorg vera orðið stór og mikilvægur partur af miðbænum. Collections var önnur búðin sem opnaði á Hafnartorgi (á eftir H&M) og ég hef verið hérna frá upphafi. Búðin varð fimm ára í apríl þannig að ég efast um að það séu margir sem hafa varið jafn miklum tíma og ég á Hafnartorgi. Það hefur verið frábært að vera partur af uppbyggingu svæðisins og ég hlakka til að fylgjast með Hafnartorgi halda áfram að þróast. Ég held að ég geti með sanni sagt að Hafnartorg sé mitt annað heimili,“ segir Heimir.

„Nálægðin við fjölbreytta flóru verslana hér í kring og allir veitingastaðirnir gera hádegismatinn minn mjög fjölbreyttan og skemmtilegan,“ segir Gulla þegar hún er spurð út í hvað sé það besta við að vinna á Hafnartorgi.

Sjá nánar

Fólkið á Hafnartorgi - Hið Íslenzka Reðasafn

30.5.2024

Jóna Kristín Hjartardóttir starfsmanna-og mannauðsstjóri, Steinar Smári Sæmundsson rekstrarstjóri og Þórður Ólafur Þórðarson framkvæmdastjóri og safnvörður. Hið Íslenzka Reðasafn hýsir heimsins stærstu sýngu af reðrum frá um 93 dýrategundum.

„Við fáum til okkar mjög fjölbreyttan hóp fólks allstaðar að úr heiminum. Safnið er þess eðlis að meirihluti fólks kemur inn til okkar í góðu skapi og er tilbúið til þess að hlæja og læra eitthvað nýtt. Starf okkar er mjög fjölbreytt þar sem við sinnum gestum sem koma inn um dyrnar hjá okkur, við vinnum í því að þróa safnið og veitingastaðinn stanslaust svo að heildarupplifun gesta okkar sé sem best en einnig er stór hluti af starfinu fólginn í því að koma fram í sjónvarpsþáttum erlendis og svara viðtölum og spurningum frá erlendum fréttamiðlum.“

Það koma oft skemmtilegar spurningar frá kúnnum okkar og fólki finnst gaman að segja okkur brandara. Við erum ekki viss hvort kúnnarnir okkar séu minna feimnir en gengur og gerist eða hvort fólk komi hreinlega bara út úr skelinni við það að labba inn á typpasafn!“

Hafnartorg er frábærlega staðsett fyrir safnið okkar. Okkar kúnnahópur er að lang stærstum hluta erlendir ferðamenn og því skiptir staðsetningin okkur miklu máli. Einnig er hverfið nútímalegt og þegar við fluttum á Hafnartorg þá var markmiðið einmitt að setja safnið í nútímalegri búning sem er í stíl við Hafnartorgs-svæðið.“

Það er gaman að vinna í miðbænum þar sem er alltaf líf og fjör og helsti kostur Hafnartorgs er að okkar mati sá að það er mjög miðsvæðis en þó ekki þannig að það þrufi að keyra þröngar götur og leita að stæði í langan tíma til að komast þangað. Það er líka alltaf gaman að geta kíkt yfir í búðirnar hjá nágrönnunum eða fara yfir á Gallery Hafnartorg mathöllina þar sem er gott að fá sér góðan mat og drykk.“

Sjá nánar

Fólkið á Hafnartorgi - Michelsen 1909

16.5.2024

Frank Ú. Michelsen Úrsmíðameistari, 3.ættliður úrsmíðameistara í Michelsen 1909 sem er elsta úraverslun landsins þar sem er að finna mörg heimsþekkt gæðamerki.

„Starf mitt í smáheimi úrsmíðarinnar er ótrúlega gefandi, að sökkva sér niður í að taka í sundur úrverk sem samanstendur af um 220 tannhjólum og öðrum hlutum að meðaltali svo ég tali ekki um úrverk sem hafa allt að 380 hluti með nákvæmni uppá 5µ (5 míkrón=0,005 mm), hreinsa og gjörskoða og skipta út slitnum hlutum, raða saman og stilla af, olíubera og að lokum að gangstilla svo allt úrverkið vinni saman og útkoman er að úrið gangi nákvæmt og öruggt, þá er sko skemmtilegt. Maður þarf að vera nörd til að skilja þetta…!“

„Að vakna við góða heilsu og tilhlökkun að hitta og vera partur af því frábæra og metnaðarfulla teymi sem veitir afburðaþjónustu við viðskiptavini Michelsen af mikilli þekkingu og reynslu, það rífur mann af stað. Ég er afar lánsamur að vera í þeirra hópi, sem er svo líflegur.“

„Að hitta viðskiptavini og vini sem ég hef eignast í tengslum við vinnuna er einfaldlega mjög gaman. Ég byrjaði ungur að árum að vinna hjá Michelsen, ég segi oft að þegar ég náði með nefið upp fyrir búðarborðið hafi ég byrjað að vinna í fjölskyldufyrirtækinu. Formlega byrjaði ég 1. október 1972 þegar ég fór á námssamning í úrsmíði svo ég hef kynnst ótal mörgu góðu og yndislegu fólki á þessum „fáu” árum sem liðin eru síðan. Það er gott að setjast niður með þeim í notalegheitum með kaffibolla í búðinni og spjalla um lífið og tilveruna og heyra að börnin þeirra og barnabörn halda tryggð við okkur.“

„Ég var í mörg ár í stjórn samtaka sem störfuðu fyrir verslun og þjónustu og fylgdist mjög vel með þróun miðborgarinnar. Á sama tíma rak ég verslun við mína gömlu götu, Laugaveg og leist illa á framtíð hennar. Þar vorum við með aðstöðu fyrir vikulega fundi okkar þar sem ég fylgdist með uppbyggingu Hafnartorgs, allt frá fyrstu skóflustungu og sá strax hvaða gríðarlegu möguleikar voru þarna fyrir framtíð öflugrar verslunar og þjónustu í miðborg Reykjavíkur. Ég var ákveðinn í að komast þangað og jafnvel búinn að velja mér staðsetningu sem er sú sem verslun Michelsen 1909 er í dag. Svo skemmir ekki fyrir að við erum komin á upphafsreit Michelsen á Íslandi því, þegar Friðrik Vlll Konungur Íslands og Danmerkur kom til Íslands árið 1907 var afi minn, J. Frank Michelsen Úrsmíðameistari með í för og gekk hann á land í fótspor konungs upp steinbryggjuna sem Hafnartorg stendur við.“

„Umhverfi Hafnartorgs í kringum verslun Michelsen 1909 er mjög rúmgott og skuggavarp er lítið sem ekkert. Hér ræður snyrtimennskan og metnaðurinn ríkjum og upplifun fólks sem hingað kemur er að hér ríki „útlandastemming” sem er mjög jákvætt. Staðsetning Hafnartorgs er frábær þegar til þess er tekið að það er í ferðamanna „tíglinum” sem er frá Kvos upp Skólavörðustíg að Hallgrímskirkju, niður Frakkastíg að Sólfarinu, Sæbraut að Hörpu og Reykjastræti að Kvos. Tíglinum lokað!“

Sjá nánar

Fólkið á Hafnartorgi - Fuego

26.2.2024

Jesus Zarate, yfirkokkur á Fuego. Ferskt, ekta mexíkóskt Taco og Quesadillas. Fuego er þekktur fyrir Pescado fiski-tacoið sitt og eini staðurinn á Íslandi sem býður alvöru Al Pastor.

„Við komum til Íslands árið 2017 og fundum það fljótt að okkur langaði að gera eitthvað til að deila ást á landinu okkar og menningu. Þar með varð veitingastaðurinn Fuego til. Með því að deila einum af vinsælustu réttum Mexíkó með Íslendingum vissum við að við myndum búa okkur til sérstöðu. Við erum svo hamingjusöm með að geta gert það saman sem fjölskylda og vaxa og dafna hér á Íslandi.“ „Að geta deilt menningu okkar í gegnum mat á Íslandi og að sjá hversu vel fólk nýtur hans er það sem gefur okkur mest. Stundum koma viðskiptavinir til okkar og vilja fræðast meira um matinn eða heimabæ okkar og það er mjög gefandi.“

„Við elskum fílinginn á Hafnartorgi og fólkið sem heimsækir okkur. Hér er kósí stemming og við erum svo hamingjusöm að geta boðið upp á matinn okkar á Hafnartorgi. Hér er hjartað í Reykjavík þar sem okkur gefst tækifæri til að vera í sambandi við bæði heimafólk og ferðamenn sem við gætum ekki verið ánægðari með.“

“Á matseðlinum okkar eru bæði klassískir réttir á borð við Al Pastor og Carne Asada Tacos en við erum líka með nokkra rétti sem við höfum aðlagað að íslenskum smekk eins og Gambas og Pescado Tacos. Það kom okkur skemmtilega á óvart að sjá að Íslendingar njóta ekki einungis mexíkóskra rétta heldur vita nákvæmlega út í hvað þeir eru að fara. Ekki einungis hvað matinn varðar heldur líka mexíkósku bjórana sem við bjóðum uppá.“

„Matur er hjartað í öllu sem við gerum í Mexíkó og við erum jafnvel með sérstaka rétti fyrir mismunandi tilefni. Taco eru að sjálfsögðu með vinsælustu réttunum, bæði í Mexíkó og út um víða veröld. Svo er hægt að fá mismunandi Taco, sumt borðar maður í morgunmat en aðrar týpur í kvöldmat. Taco fyrir Mexíkönum má líkja við það sem pylsur eru fyrir Íslendingum.“

„Við bjuggum nýlega til Taco sem mamma kenndi mér að gera sem heitir Cochinita Pibil Taco og okkur þykir vænt um hversu vel hefur verið tekið í réttinn. Mamma hefur alltaf haft einstaka náðargáfu í eldhúsinu og ég hef elskað að fylgjast með henni elda frá barnæsku. Það hefur verið einstaklega gefandi og fallegt að læra af henni og að geta sett okkar eigið tvist á aldagamlar uppskriftir frá henni.“

Sjá nánar

Fólkið á Hafnartorgi - The North Face

13.2.2024

Birna Dögg Guðmundsdóttir, verslunarstjóri The North Face á Íslandi. The North Face á rætur að rekja til San Francisco þar sem það var stofnað árið 1968 og framleiðir tæknilegan útivistarfatnað, hlaupafatnað, klifurfatnað, aukahluti auk götufatnaðar. Merkið hefur verið leiðandi í útivistarfatnaði og er í dag stærsta merkið í þessum bransa. Fyrsta verslun The North Face á Íslandi opnaði á Hafnartorgi árið 2022.

„Gefandi að vera treyst fyrir því að taka þátt í ævintýrum fólks“

„Mér finnst svo gaman að taka á móti fólki, oft bókstaflega inn úr rokinu og rigningunni, til að aðstoða þau við að velja viðeigandi fatnað. Mér finnst þessi persónulegu samskipti skemmtileg, enda kemur til okkar fjölbreyttur hópur fólks. Hluti viðskiptavina okkar eru að heimsækja Ísland í fyrsta skipti og ekki endilega vön íslensku veðri, hvað þá að vetri til. Að fá að taka lítinn þátt í ævintýrum þeirra og vera treyst fyrir því, það er svo gefandi.“

„Hafnartorg er uppfullt af lífi og fjöri og enginn dagur eins. Maður hittir allskonar fólk og verkefni dagsins eru fjölbreytt. Ég bý og starfa í miðbænum og mér þykri hressandi að geta rölt í og úr vinnu, svo skemmir ekki fyrir að stutt er að fara í mat og drykk sem hentar mér vel.“

„Í starfi mínu sameinast áhugi minn, reynsla og menntun sem tískumarkaðsfræðingur og frá opnun hef ég tekið þátt í öllu ferlinu. Þá fer ég reglulega erlendis með samstarfsfólki mínu að velja vörur fyrir verslunina okkar. Það er mjög skemmtilegt þegar maður hefur frá fyrstu stundu skilning en um leið fulla trú á því sem maður er að selja. Þá þekki ég vöruna í raun út og inn þegar hún lendir loks í versluninni hjá okkur.“

„The North Face er stærsta útivistarmerki heims, stofnað í San Francisco árið 1966 og því tæplega 60 ára gamalt. Að taka þátt í uppbyggingu vörumerkisins hér á landi hefur verið lærdómsríkt og virkilega skemmtilegt. Í verslun okkar hér á Hafnartorgi seljum við útivistar- og lífsstílsfatnað sem stenst tímans tönn enda vel þekkt að vörurnar standi fyrir gæði, endingu og erfist kynslóða á milli.”

Sjá nánar

Fólkið á Hafnartorgi - Skor

7.2.2024

Ipun Lahiru, verkefnastjóri hjá Skor á Hafnartorgi. Skor er skemmtilegur staður til þess að gera sér glaða stund með einfaldari, aðgengilegri og skemmtilegri leikjum en hefðbundin píla.

„Dagarnir mínir eru skemmtilega fjölbreyttir, stundum er ég að fást við eitthvað sem tengist fjármálum, stundum sölu- og markaðssetningu og þess á milli létt húsvarðastörf eða að laga pílukerfið okkar. Mín bíða alltaf einhver spennandi og ný ævintýri á hverjum degi.“

„Hafnartorg er svo vel staðsett í hjarta miðborgarinnar og stutt í alla þjónustu. Hér er hægt að finna góða veitingastaði og afþreyingu með því að labba stuttan spöl.“

„Það hefur verið gríðarlega gefandi að fylgjast með Skor vaxa og dafna. Við getum verið stolt af þessari íslensku hönnun og hver veit hvað gerist næst. Nú erum við búin að opna nokkra „express“-staði eða pílubása á Íslandi fyrir utan okkar aðalstað á Hafnartorgi og við vorum líka að opna stað í Aarhus í Danmörku. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og það eru forréttindi að fá að taka þátt í því.“

„Partípíla er ný og spennandi hugmynd á Íslandi og gaman að segja að allt kerfið er hannað hér á landi. Það geta allir spilað pílu og haft gaman að. Kerfið okkar er einfalt í notkun og við leggjum áherslu á hönnun, einfaldleika og skemmtun. Það er gaman að sjá hversu vel hefur verið tekið í þetta nýja konsept og á Skor er alltaf mikil stemning og brjálað að gera allar helgar.“

Sjá nánar